FERÐUMST INNANLANDS Í SUMAR | ÍSLAND Á EIGIN VEGUM

Það hefur aldrei verið betri tími til að ferðast um Ísland en nú. Á síðastliðnum árum hafa sprottið upp ótal afþreyingarmöguleikar í öllum landshlutum sem hafa dregið að erlenda ferðamenn. Á sama tíma hafa margir Íslendingar ekki gefið sér tíma til að upplifa land sitt á sama hátt og þeir sem koma að utan. Nú þegar færri eru á ferli, og flest ferðaþjónustufyrirtæki sjá sér hag í því að bjóða upp á margvísleg tilboð, er tími til að leggja af stað í draumafrí um Ísland.

Ef planið var að eyða tveimur vikum í hjólaferð um Þýskaland, eða keyrandi á milli áfangastaða í frönskumælandi Kanada, er upplagt að skipuleggja ítarlega hringferð um landið í staðinn. Ef þú og þínir ætluðu hins vegar að slappa af við sundlaugarbakka í viku, með einstaka ferðum í skemmtigarða og á nærliggjandi strönd, liggur beint við að bóka gistingu á fallegum stað með heitum potti, taka með góða bók og fara í gönguferðir og afþreyingu í nágrenninu.

Hidden Iceland er ungt og framsækið ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur undanfarið dvalið á toppnum, eða nálægt honum, á Tripadvisor. Það er að mestu leyti að þakka okkar frábæra teymi en einnig því að við vöndum vel valið á öllum okkar samstarfsaðilum. Hér að neðan má lesa allt um okkar uppáhaldsstaði í hverjum landshluta og þá frábæru afþreyingu og gistingu sem er í boði. Margir eru um þessar mundir að auglýsa pakkatilboð eða lækkuð verð á heimasíðum sínum eða á samfélagsmiðlum sem eru eins mismunandi og þau eru mörg, því er upplagt að hafa samband beint og spyrjast fyrir áður en lagt er af stað.

Iceland Drive | Hidden Iceland | Photo by Norris Niman

SUÐURLAND

JÖKLAR, HÁLENDISAÐGENGI & ENDALAUS AFÞREYING

Ef þú býrð á höfuðborgarsvæðinu er ekki ólíklegt að þú hafir stoppað nokkrum sinnum á Geysi og við Seljalandsfoss. Hinn klassíski sunnudagsbíltúr, eða dagsferð úr huggulegum bústað, leiðir okkur borgarbörnin ósjaldan á hina fjölmörgu „túristastaði“ í nágrenni okkar. Frægð og auðvelt aðgengi að okkar þekktustu náttúruperlum gerir þær samt engu síðri og það er auðvelt að finnar nýjar hliðar á margheimsóttum stöðum eins og Þingvöllum og Skógafossi með því að finna nýjar gönguleiðir, eða fara aðeins lengra. Það er jafnvel hægt að skyggnast undir yfirborðið með því að snorkla í Silfru. Hesta, hjóla, fjórhjólaferðir og snjósleðaferðir eru líka frábær leið til að öðlast nýtt sjónarhorn á þekktum svæðum. Svo hafa örugglega ekki allir tekið hina ýmsu útidúra nálægt okkar þekktustu stöðum til að sjá engu síðri fegurð, s.s. Brúarhlöð nálægt Gullfossi, Þórufoss á leiðinni á Þingvelli, Kvernufoss við Skógafoss, Nauthúsagil norður af Seljalandsfossi, eða Dyrhólaey rétt vestan við Reynisfjöru. Nálægt Kirkjubæjarklaustri eru ótal gönguleiðir og svo er hlíðin fyrir ofan bæinn afskaplega falleg og gott að byrja eða enda daginn í Systrakaffi í mat. Svo má ekki gleyma Fjaðrárgljúfri sem að vinur okkar Justin Bieber gerði svo frægt.

Kvernufoss | Hidden Iceland | Photo Norris Niman

Á Suðurlandi er líka einstaklega auðvelt aðgengi að sumum af okkar frægustu hálendisparadísum. Þetta veit flest jeppafólkið en við hin getum líka mjög auðveldlega tekið rútu úr bænum, eða keyrt bróðurpartinn og einungis greitt fyrir rútu síðasta spölinn. Síðastliðin ár hafa Landmannalaugar ekki setið hátt á lista hjá mörgum vegna gífurlegs fjölda erlendra ferðamanna sem leggja þangað leið sína. Í ár er upplagt að nýta tækifærið og heimsækja þann stað sem margir telja með þeim fegurstu á jarðríki. Á leiðinni, eða bara í sérferð, má skoða allt sem Þjórsárdalurinn hefur upp á að bjóða, s.s. Gjána, Hjálparfoss, Háafoss og Stöng.

Þeir sem kynnast Þórsmörk vel vilja fara þangað ár eftir ár, en vegna jökulánna sem hafa mótað þetta stórbrotna svæði er ómögulegt að komast þangað á bæjarbílnum. Það er hins vegar ekkert mál að hoppa upp í rútu frá Hvolsvelli og koma sér fyrir í skála eða tjaldi í nokkrar nætur. Gönguleiðarnar eru endalausar sama hvaða formi þú ert í og það er m.a.s. veitingastaður í Húsadal fyrir þá sem vilja einfalda sér lífið.

Landmannalaugar Highlands of Iceland | Hidden Iceland | Photo Mark Hoey | Featured

Ef þú vilt upplifa kyrrð og ró en ert ekki tilbúin til að hossast á fjallvegum þá er stutt að fara að bökkum Þjórsár til að vera flutt yfir á Traustholtshólma. Ef planið var að dvelja yfir nótt á einstökum stað erlendis og taka fullt af flottum myndum til að setja á samfélagsmiðla þá þarftu ekki að fara lengra. Lúxusdvöl á einkaeyju fyrir vinahópinn er ekki lengur fjarlægur draumur heldur tuttugu mínútna akstur frá Selfossi. Á Traustholtshólma eru lykilorðin sjálfbærni og tengsl við náttúruna.

Foreldrar fótboltabarna þekkja flest hver hvern krók og kima af Vestmannaeyjum og einhverjir hafa tekið þátt í hópsöng í Herjólfsdal. En Vestmannaeyjar eru líka ansi stórkostlegar þegar þær eru ekki yfirteknar af Þjóðhátíðargestum og einkennisklæddum börnum í keppnisskapi. Skansinn, Stórhöfði, Eldfell, sundlaugin, veitingahúsin og söfnin eru efni í 2-3 daga heimsókn og allir sem þraukuðu siglinguna í Herjólfi ættu líka að skella sér í bátsferð um nærliggjandi eyjar. Hótel Vos í Þykkvabæ er tilvalinn staður til að gista í einhverjar nætur á meðan nærumhverfið er skoðað. Veitingarstaðurinn og heiti potturinn er æðislegur endir á góðum degi úti í náttúrunni!

Síðast en ekki síst eru jöklarnir á Suðurlandi. Það má segja að þeir séu ein helsta ástæða fyrir tilveru Hidden Iceland þar sem tveir af þremur stofnendum fyrirtækisins eru jöklaleiðsögumenn sem voru ekki nógu ánægðir með úrvalið af jöklaferðum frá Reykjavík. Þeir eru ansi margir Íslendingarnir sem hafa ekki farið í jöklagöngu eða kíkt í skærbláan íshelli, tvennt sem situr ofarlega á óskalista flestra erlendra ferðamanna. Íshellarnir verða því miður að bíða fram á vetur en fjölmargir ferðaþjónustuaðilar bjóða upp á miserfiðar jöklagöngur. Local Guide of Vatnajökull tekur vel á móti ykkur í jöklagöngu á Falljökli, og hefur bæði með lengri og styttri göngur í boði yfir sumarið og síðan íshellaferðir yfir veturinn. Barnafólk, eða þeir sem eru ekki tilbúnir í krefjandi göngur, geta í staðinn fyrir jöklagöngu eða íshellaskoðun þotið um Eyjafjallajökul á snjósleða.

Allra jafna er nánast ómögulegt að fá gistingu í skjóli Vatnajökuls yfir sumartímann en í ár ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Gistihúsið Lilja er fjölskyldurekið fyrirtæki og fullkominn gististaður þegar ferðast er um þetta svæði, staðsett austan við Jökulsárlón. Gistiheimilið er með gullfallegt útsýni úr rúmgóðum, nýjum herbergjum yfir Heinabergsjökul og Fláajökul. Í Skaftafelli er t.d. eitt fallegasta tjaldsvæði landsins og stutt í jöklagöngur og aðra útivist í þjóðgarðinum. Á milli Jökulsárlóns og Hafnar má líka finna sjarmerandi gistimöguleika og veitingastaði til að stoppa á áður en haldið er lengra austur.

AFÞREYING Á SUÐURLANDI

MATUR & GISTING

AUSTURLAND

GRÓÐURSÆLD, MATARMENNING, FÁMENNI & RÓ

Þegar komið er framhjá Höfn taka firðir við af klettóttum ströndum. Í stað þess að bruna austur er tilvalið að keyra malarveginn að Stokksnesi og njóta útsýnisins yfir Vestrahorn. Göngugarpar geta tekið misstóra hringi í kringum fjall og fjöru, á meðan foreldrar ungra barna ættu að geta notið sín í fjörunni meira og minna allan daginn ef veður leyfir. Restin af Suðausturhorninu er líka stórkostleg og fátt fallegra en Álftafjörðurinn þegar hann ber nafn með rentu.

Ef nægur tími er til stefnu þá er ekkert skemmtilegra en að þræða flest þorpin á Austfjörðunum og leita uppi gönguleiðir sem henta ferðafélagsskapnum. Hefðbundið íslenskt fjölskyldufrí snýst líka að miklu leyti um að prófa allar sundlaugarnar og bakaríin og leita uppi ísbúðir. Fyrsta skyldustoppið á austurleið er hins vegar að sjálfsögðu á Stöðvarfirði. Steinasafn Petru er einn af hlýlegri stöðum á landinu og útsýnið þaðan yfir fjörðinn er alveg einstakt. Fáskrúðsfjörður er líka fallegur bær sem leggur mikið upp úr sinni frönsku tengingu með áhugaverðu safni og skemmtilegum byggingum.

Stokksnes Peninsula | Vestarhorn | Hidden Iceland | Photo by Norris Niman

Norðan fyrir Fjarðarbyggð er ótalmargt að sjá og veður- og gróðursæld Fljótsdalsins er einstök. Íbúum annarra landsvæða líður gjarnan eins og þeir séu komnir á meginlandið þegar farið er inn í þjóðskóginn Hallormsstaðaskóg. Fjölskyldufólk getur notið sín við bakka Lagarfljóts og á leikvöllum og gönguleiðum í skóginum allan liðlangan daginn. Við Urriðavatn má finna nýjustu viðbótina við náttúruböð landsins, en Vök hefur þá sérstöðu að vera með drykkjarhæft jarðhitavatn. Innan af Fljótsdalnum tekur við Norðurdalur þar sem finna má Óbyggðasetrið, alveg einstakan gististað og upplifun. Þar, í jaðri hálendisins, er hægt að fara í heitar laugar, hesta- og göngurferðir, taka þátt í lífinu á bænum og kíkja á þvílíkt skemmtilega og lifandi sýningu um óbyggðir Íslands.

Frá Óbyggðasetrinu eða öðrum gististöðum í nágrenninu er upplagt að keyra inn á hálendið í átt að Kárahnjúkavirkun og njóta útsýnis yfir Vatnajökul og fjöllin í kring. Það má líka heimsækja afskekktari bæjarfélög, eins og Borgarfjörð Eystri, Brekkuþorp í Mjóafirði og Seyðisfjörð. Leiðin á hvern stað er ævintýri útaf fyrir sig og svo tekur við heillandi byggð á töfrandi stað með ýmsum göngu- og afþreyingarmöguleikum. Seyðisfjörður er algjör veitingaparadís og njóta íbúarnir góðs af innflutningi Austurlands Food Coop á ferskasta grænmeti og ávöxtum hverju sinni sem og lífrænni ræktun á gómsætu græntmeti og kornvörum frá Móðir Jörð í Vallanesi. Í hjarta Fljótsdalsins má svo finna mest spennandi hlaðborð landsins á Klausturkaffi á Skriðuklaustri. Í næsta nágrenni er Snæfellsstofa þar sem sækja má ýmsan fróðleik um þjóðgarðinn og bjóða landverðir upp á gönguferðir fyrir börn. Síðast en ekki síst er gönguleiðin að Litlanesfossi og Hengifossi sem er eilítið krefjandi en samt sem áður flestum fær.

AFÞREYING Á AUSTURLANDI

MATUR & GISTING

NORÐURLAND

NÁTTÚRUÖFL, SVEITASJARMI & HEITAR LAUGAR

Þegar kemur að afþreyingu og einstökum náttúrufyrirbrigðum er Norðurland ekki feti fyrir aftan Suðurland og ætla má að ef alþjóðaflugvöllur Íslands væri á Akureyri en ekki í Keflavík þá væri Demantshringurinn ekki minna þekktur en sá Gullni. Algengast er að keyra hálendisjaðarinn norður og þá væri ekki verra að stoppa í Möðrudal, þar sem boðið er upp á veitingar, gistingu og ferðir frá hæðsta byggða bóli landsins. Það er hins vegar líka ótrúlega skemmtilegt að lengja hringinn með því að þræða Norðausturhornið, skoða Heimskautsgerðið og bæta jafnvel Melrakkasléttu og Langanesi við.

Þegar norðurleiðin er farin er upplagt að heimsækja Ásbyrgi og ganga á Eyjuna og að Botnstjörn. Tjaldferðalangar ættu án efa að dvelja þar yfir nótt en aðrir verða að láta sér duga styttri heimsókn á þennan uppáhaldsstað margra Íslendinga. Frá Ásbyrgi er skemmtilegt að keyra vestanmegin að Dettifossi, þar sem hægt er að bæta við stoppi við Hljóðukletta. Við Dettifoss verða svo allir að rífa fram regnjakkann til að komast sem næst risanum og ekki sleppa aukagöngunni að Selfossi.

Dettifoss waterfall | North East Iceland | Hidden Icleand

Mývatn og allt þar í kring er alveg einstakt. Það er hins vegar ansi erfitt að forðast stóra hópa erlendra ferðamanna þar yfir háannatímann sem gerir heimsókn á svæðið alveg nauðsynlega í ár. Hin fjölmörgu hótel og gististaðir sem hafa risið á svæðinu ættu að eiga laus herbergi svo ekki er þörf á að ana á milli staða, heldur stoppa a.m.k. tvær nætur eins og vanir túristar. Tilvalið er að þemaskipta dögunum og byrja á jarðhitanum, keyra að Stóra-Víti og Kröflu, fara þaðan að Námaskarði og Hverum, slaka svo á í Jarðböðunum, kíkja í Grjótagjá og enda daginn á göngu á Hverfjall. Næsti dagur væri svo í mun gróðursælla umhverfi og gengið væri um Dimmuborgir og farið í kring um vatnið að Skútustaðagígum og Höfða.

Myvatn Nature Baths | Hidden Iceland | Photo Myvatn Nature Baths

Engin alvöru túristareisa um Norðurland er fullkomnuð án hvalaskoðunar og er úrvalið ansi mikið. Fyrir okkur standa hins vegar tvær ferðir upp úr, annars vegar sigling á rafbátnum Andvara með Norðursiglingu á Húsavík og hins vegar sjóstangar- og hvalaskoðunarferðirnar frá Hauganesi. Eftir bátsferðirnar er svo sjálfsagt að fara í næstu heitu laug, GeoSea við Húsavík eða Bjórböðin, rétt norðan við Hauganes.

Tröllaskaginn er bæði efni í sérferð og frábær útidúr í hringferð um landið. Þaðan má sigla út í Hrísey og Grímsey, borða dýrindis mat og fara á frábær söfn og æðislegar sundlaugar. Dalvík er heimili fiskisúpunnar, hinn litríki Siglufjörður er eitt af mest heillandi bæjarfélögum landsins og útsýnið úr lauginni á Hofsósi er engu líkt. Svo má bæta við bíltúr að Hólum í Hjaltadal þar sem hægt er að fá gönguleiðsögn um þennan sögufræga og fallega stað. Erlendir ferðamenn keyra svo ekki framhjá Vatnsnesinu án þess að fara að klettinum Hvítserki, á meðan margir Íslendingar hafa aldrei litið í átt að malarveginum sem liggur að þessu mikilfenglega náttúrufyrirbæri. Svo áður en haldið er á Skagaströndina má líka taka smá krók inn í land að Bakkaflöt þar sem finna má bestu flúðasiglingaaðstöðu landsins.

AFÞREYING Á NORÐURLANDI

MATUR & GISTING

VESTFIRÐIR

DÝRALÍF, EINVERA, FJÖLL & FIRÐIR

Flestir Íslendingar virðast geta rakið ættir sínar til Vestfjarða og margir eiga sterka tengingu við eitthvað af bæjarfélögunum á svæðinu. Að leggjast í reisu um Vestfirðina er aftur á móti sjaldgæfara en skreppitúr á Ísafjörð og sérstaklega að bæta Vestfjörðunum við önnur lengri ferðalög um landið. Það er hins vegar eitthvað sem margir erlendir ferðamenn gera og mælum við þá ávallt með að enda förina á Vestfjörðunum, sem rúsínuna í pylsuendanum. Stórbrotið og fjölbreytt landslagið, djúpu firðirnir og bröttu fjöllin, ásamt endalausu möguleikunum til einveru gera dvöl á Vestfjörðunum að einstakri upplifun, jafnvel eftir hringferð um okkar fallega land.

Valleys of Westfjords of Iceland | Wild Westfjords Tour | Hidden Iceland | Photo by Norris Niman | Featured

Það er engin rétt leið til að fara Vestfirðina en hægt væri að færa rök fyrir því að keyra stefna vestur um Suðurfirðina og byrja á útidúr að Reykhólum. Þar eru þaraböð og Grettislaug, ásamt gönguleiðum og dásamlegri fjöru. Eftir skyldustopp á Bjarkarlundi taka við hlykkjóttir firðir og brattar hlíðar og bæta má við göngutúr um Teigsskóga sem flestir þekkja bara úr umræðu um umdeildar vegaframkvæmdir. Áður en komið er að Barðaströndinni er gaman að stoppa við Flókalund og kíkja í Hellulaug sem situr í flæðarmálinu fyrir neðan veginn.

Á suðvesturhorninu er afskaplega margt að skoða og eiginlega nauðsynlegt að dvelja þar í nokkra daga til að geta tekið sinn tíma og spilað heimsóknirnar að einhverju leyti eftir veðri. Patreksfjörður er fullkomin bækistöð fyrir dagsferðir, með góðri sundlaug, verslunum og gististöðum. Á fallegum degi er hægt að dvelja meirihluta dags á Rauðasandi og sama á við um Látrabjarg og sunnanverðan Arnarfjörðinn, þar sem finna má hvítar fjörur og hið magnaða Listasafn Samúels í Selárdal. Staðir eins og ströndin við Breiðuvík, safnið að Hnjóti, Hænuvík og Reykjarfjarðarlaugin lenda síður á topp tíu listum en það gerir heimsóknina engu síðri.

Á leiðinni norður liggur leiðin framhjá Dynjanda sem er vel hægt að færa rök fyrir að sé fallegasti foss landsins. Næsta þéttbýli þegar framhjá honum er komið er Þingeyri þar sem Simbahöllin býður upp á fjallahjólaleigu til að fara hinn svakalega Svalvogshring eða styttri ferðir, svona fyrir venjulegt fólk. Á síðastliðnum árum hefur mannlífið á Flateyri heldur betur tekið við sér og er bærinn orðin vinsæll áfangastaður hjá ferðamönnum. Þar eru hin ýmsu söfn og hægt að fara á kayak og í gönguferðir, ásamt því að flatmaga á Holtsströnd, hinum megin við Önundarfjörðinn. Ótal möguleikar á gistingu má finna á svæðinu, t.d. hjá Holt Inn og Kirkjubóli í Bjarnardal.

Ísafjörður og allt djúpið er svo náttúrulega stórkostlegt. Vesturferðir bjóða upp á mikið úrval af bátsferðum frá Ísafirði, þ.á.m. mislangar gönguferðir um Hornstrandir. Einnig er gaman að keyra fram hjá Hnífsdal og Bolungavík og fara í útsýnisakstur upp á Bolafjall. Á leiðinni inn djúpið er hægt að stoppa hér og þar til að dást að selum í flæðarmálinu, kíkja í Melrakkasetrið og ganga inn Valagil. Okkar uppáhaldsstaður fyrir gistingu og afþreyingu á svæðinu er svo hjá Stellu í Heydal. Þar er boðið upp á dýrindis mat úr hráefni sem er að mestu leyti úr sveitinni, huggulega gistingu, úrval af borðspilum og bókum, ásamt hesta- og kayakferðum. Á svæðinu eru náttúrulaugar, hlaðnir heitir pottar og sundlaug í gróðurhúsi.

Strandir eru svo heill kapítuli útaf fyrir sig. Hægt er að byrja á heimsókn í Galdrasafnið og fara svo til Drangsness og kíkja í pottana þar eins og sannur túristi. Þaðan liggur ferðin í Árneshrepp, sem er fámennasti hreppur landins með u.þ.b. 40 íbúa. Bæði í Djúpuvík og á Norðurfirði eru gististaðir og tjaldsvæði þaðan sem hægt er fara í Krossneslaug, ganga um svæðið og jafnvel lengra norður í átt að Hornströndum.

AFÞREYING Á VESTFJÖRÐUM

MATUR & GISTING

VESTURLAND

HRAUNBREIÐUR, HELLASKOÐUN, BJÖRG & STRANDIR

Einhverjir gætu nú verið ósammála en í þessari landshlutaskiptingu nær Vesturland yfir hraunþökktu nesin tvö, Snæfellsnes og Reykjanes, og allt þar á milli. Við munum þó láta helstu kennileiti Reykjavíkur og nágrennis vera í bili, enda flestir Íslendingar með höfuðborgina á hreinu. Þegar farið er um Vesturland á norðurleið, eða komið frá Vestfjörðum eða Norðurlandi, er oftast brunað í gegnum svæðið í kringum Bifröst, enda stutt í eða frá stoppi í Borgarnesi. Þar má hins vegar eyða heilum degi með því að ganga á Grábrók, þræða stíga meðfram Hreðavatni, skoða fossinn Glanna eða fara niður með NorðuráParadís.

Þegar við hönnum hringferðir fyrir erlenda hópa reynum við alltaf að bæta við degi í Húsafelli og nágrenni, annað svæði sem alltof oft verður útundan þegar fólk er að drífa sig á milli áfangastaða. Þangað er líka gaman að koma að vetri til vegna hinna ýmsu afþreyingarmöguleika sem eru í boði og ekki skemmir fyrir hversu falleg norðurljósin og tindrandi náttúran geta verið á héluðum vetrarkvöldum. Svo er hægt að liggja í heitum laugum í hvaða veðri sem er, hvort sem farið er í litlu sundlaugina á Húsafelli, hin einstöku Giljaböð eða gufuna og pottana í Kraumu, þar sem má flatmaga í blöndu af tandurhreinu hvera og jökulvatni. Fjölbreytt úrval gönguleiða er á svæðinu, bæði léttar göngur um skóginn og erfiðari á nærliggjandi fjöll, og svo auðvitað inn í gilin um kring. Einnig er hægt að fara á Langjökul og ísgöngin þar, skoða hellinn Víðgelmi og kíkja á hestbak frá Sturlureykjum.

Snæfellsnesið er líklegast helsta aðdráttarafl Vesturlands og þangað hafa flestir Íslendingar komið. Þar er hins vegar svo margt að sjá og skoða að dags- eða helgarferð er langt frá því að vera nægur tími til að kynnast svæðinu til hlítar. Á sunnanverðu nesinu má t.d. ganga á Eldborg, fara að Gerðubergi, dreypa á ölkelduvatni, skoða seli við Ytri-Tungu, ganga eftir fjörunni við Langaholt, heimsækja Rauðfeldsgjá, fara frá ArnarstapaHellnum, kíkja í hellaskoðun í Vatnshelli, ganga um svæðið við Malarrif og Lónsdranga, fara að Djúpalónssandi og Dritvík og dást að jöklinum við hvert tækifæri. Göngugarpar geta líka gengið á jökulinn undir leiðsögn. Fjallasýnin á norðanverðu nesinu er svo engu lík, sérstaklega þegar horft er að Kirkjufelli að austan. Hægt er að skoða vegglistaverk á Hellissandi, keyra að Ingjaldshólskirkju og Svöðufossi, kíkja í heimsókn á hákarlasetrið á Bjarnarhöfn og njóta matar og drykkjar á Stykkishólmi. Þaðan er líka upplagt að fara með Baldri í dagsferð, eða yfir nótt, í Flatey. Svo má alltaf gera góða ferð betri með því að fara Hvalfjörðinn í bæinn og ganga að Glymi, eða a.m.k. þann hluta sem er flestum fær.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins sækja Reykjanesið venjulega heim í nokkrum dagsferðum en þeir sem koma frá öðrum landshlutum geta vel gist á svæðinu eða reynt að sjá sem mest í einni ferð. Dagsferð Hidden Iceland um Reykjanesið hefst venjulega í Þrengslunum með heimsókn í Raufarhólshelli. Þaðan liggur leiðin að Kleifarvatni og Krýsuvík, áður en farið er að hinni svokölluðu brú á milli heimsálfa, Reykjanesvita og Gunnuhver, með viðkomu við Hafnarberg til að dást að öldunum og útsýninu. Erfitt er að sjá og gera meira en þetta en alltaf má bæta við stoppi við Brimketil og þræða norðurströndina. Í Reykjanesbæ er margt er gera, sérstaklega fyrir barnafólk, og svo er Garðsviti og ströndin þar í kring afskaplega falleg.

AFÞREYING Á VESTURLANDI

MATUR & GISTING

Tíminn til að ferðast um Ísland er núna. Verðlag er með betra móti, færri eru á ferli og svo eru fáir staðir jafn fallegir og fjölbreyttir. Ef veðrið er í ofanálag gott á meðan á förinni stendur þá er það bara svakalegur bónus. Það er í okkar allra hag að þjónusta og afþreying á landinu haldist fjölbreytt og með því að sækja Ísland heim getum við lagt okkar að mörkum.

Hidden Iceland Logo | Hidden Iceland

One thought

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.